Námskeið fyrir eigendur Hjálparhunda - Febrúar 2022
- Hjálparhundar Íslands
- Jan 27, 2022
- 3 min read
Námskeið fyrir eigendur Hjálparhunda - Febrúar 2022
Hjálparhundar Íslands auglýsa námskeið fyrir eigendur hjálparhunda og aðra félagsmenn. Námskeiðið verður tvískipt með bóklegum og verklegum hluta.
Í bóklega hlutanum verða fjölbreytt fræðsluerindi um uppeldi, umhverfisþjálfun, andlega og líkamlega velferð hjálparhunda ásamt kynningu á vottunarferli þeirra. Í verklega hlutanum fer fram bein þjálfun hundanna. Í ljósi aðstæðna munum við nýta okkur tæknina fyrir bóklega hlutann og streymum vikulegum fræðsluerindum gegnum ZOOM, samtals fjögur kvöld. Fyrsta erindi verður þriðjudaginn 1. febrúar, sjá nánar hér að neðan. Fyrirlesarar munu svara spurningum að loknum erindum svo þetta er kjörið tækifæri fyrir alla áhugasama til að kynna sér málefni hjálparhunda.
Verklegi hlutinn fer fram í raunheimum yfir helgi þegar viðrar betur til þess bæði veðurfarslega og með tilliti til sóttvarna og faraldurs. Auður Björnsdóttir mun stýra verklega hlutanum þar sem þátttakendur fá einstaklingsmat og þjálfun eftir þörfum. Nánar um það síðar.
Þátttakendur og staðsetning:
Bóklegi hluti námskeiðs verður í boði fyrir félagsmenn Hjálparhunda Íslands sem fá aðgang að streymi sent í tölvupósti.
Verklegi hluti námskeiðs verður í boði fyrir eigendur hjálparhunda og fá þeir sendar frekari upplýsingar um staðsetningu þegar nær dregur mars/apríl.
Dagskrá fræðsluerinda
Þriðjudagur 1. febrúar kl. 20.00.
Heiti: Uppeldi og umhverfisþjálfun hjálparhunda
Umsjón: Auður Björnsdóttir
Auður er hjálpar- og leiðsöguhundaþjálfari og hefur hátt í 30 ára reynslu að þjálfa hjálparhunda. Hún lærði í Hundeskole Gunnvald Andersen í Noregi að þjálfa leiðsöguhunda fyrir blinda og seinna að þjálfa hjálparhunda fyrir fatlaða. Áður var Auður með leitarhund á vegum BHSÍ og var meðal annars við leit í snjóflóðunum í Súðavík. Á ferli sínum hefur Auður alið upp fjöldan allan af hvolpum sem hafa fengið það hlutverk að vera leiðsögu- eða hjálparhundar og hefur þar af leiðandi gríðarlega reynslu af uppeldi hunda.
Í erindi sínu mun Auður fjalla um uppeldi og umhverfisþjálfun hjálparhunda og hvað mikilvægt er að hafa í huga til að undirbúa verðandi hjálparhunda fyrir sértæka þjálfun.
Fyrirlesturinn fer fram í gegnum ZOOM og verður tengill aðgengilegur þegar nær dregur.
Fimmtudagur 3. febrúar kl. 20:00
Heiti: Velferð og öryggi starfandi hjálparhunda
Umsjón: Valgerður Stefánsdóttir
Valgerður er MA í uppeldis- og menntunarfræði og hefur lokið námi frá Lífvísindaháskólanum í Noregi í hvernig hundar geta nýst í þjónustu fólks. Hún hefur ræktað schnauzerhunda um árabil, hefur unnið markvisst að þjálfun eigin hunda í um 20 ár og sótt fjölmörg námskeið um atferli og þjálfun hunda. Valgerður á nú tvo schnauzerhunda Fóu og Sigmund. Fóa hefur staðist skapgerðarmat sem þjónustuhundur og Valgerður og Fóa hafa staðist úttekt ICofA til þess að vinna innan skólakerfisins við að veita íhlutun með aðstoð hunds.
Í erindi sínu mun Valgerður Stefánsdóttir fjalla um ábyrgð eigenda á að tryggja velferð starfandi hjálparhunda.
Fyrirlesturinn fer fram í gegnum ZOOM og verður tengill aðgengilegur þegar nær dregur.
Þriðjudagur 8. febrúar kl. 20:00
Heiti: Heilsa og heilbrigði hjálparhunda
Umsjón: Þóra Jóhanna Jónasdóttir
Þóra Jóhanna starfar sem sérgreinadýralæknir gæludýra og velferðar hjá Matvælastofnun (MAST). Hún lauk dýralæknaprófi frá Dýralæknaháskóla Noregs árið 1990 og doktorsprófi við sama skóla árið 2002. Starfaði hún sem héraðsdýralæknir á Vestfjörðum 1990-93, en flutti þá aftur til Noregs. Þar starfaði hún á árunum 1994-2013 að mestu á gæludýradeild Dýralæknaháskólans í Osló við kennslu, aðallega á lyflæknadeild og á bráðamóttöku gæludýra, en einnig við krabbameinsrannsóknir í samvinnu milli gæludýra- og erfðafræðadeildar háskólans, spítala og lyfjaþróunarfyrirtækis. Þóra hefur starfað hjá MAST frá árinu 2013. Til viðbótar við dýralæknastörf er Þóra hamingjusamur hundaeigandi sjálf, með 4 hunda á heimilinu eins og er. Hún hefur verið með leitar- og björgunarhunda í mörg ár, bæði fyrir snjóflóða- og víðavangsleit og sporrakningar. Er hún meðlimur í Björgunarhundasveit Íslands og starfar með Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík.
Í erindi sínu mun Þóra fjalla um heilbrigði hunda með áherslu á starfandi hjálparhunda.
Fyrirlesturinn fer fram í gegnum ZOOM og verður tengill aðgengilegur þegar nær dregur.
Fimmtudagur 10. febrúar kl. 20:00
Heiti: Vottun hjálparhunda
Umsjón: Gunnhildur Jakobsdóttir
Gunnhildur starfar sem iðjuþjálfi á Æfingastöðinni og er með meistarpróf í heilbrigðisvísindum. Hún lauk námi við Lífvísindaháskólann í Noregi um íhlutun með aðstoð dýra með áherslu á notkun hunda. Hún starfar á Æfingastöðinni þar sem hún veitir meðal annars iðjuþjálfun með hundi og hestum. Hún á fimm ára gamla flatcoated retriever tíkina Skottu sem er vottaður þjónustuhundur frá International Cener of Anthrozoology.
Í erindi sínu mun Gunnhildur kynna vottunarferli hjálparhunda sem unnið var fyrir Hjálparhunda Íslands.
Fyrirlesturinn fer fram í gegnum ZOOM og verður tengill aðgengilegur þegar nær dregur.
Eins og áður sagði þá verður bóklegi hlutinn í boði fyrir gilda félagsmenn Hjálparhunda Íslands árið 2022 . Til að gerast félagi smellið hér
Skráning á námskeiðið fer fram í gegnum hjalparhundar@gmail.com
Námskeiðin eru styrkt af Öryrkjabandalagi Íslands

Commentaires