top of page

Hvað kostar hjálparhundur?

Að kaupa þjálfaðan hjálparhund kostar um 5 milljónir. Ódýrara er að þjálfa hundinn sjálf/ur og greiða hundaþjálfara fyrir handleiðslu.

Hvað tekur langan tíma að þjálfa hjálparhund?

Það tekur að minnsta kosti tvö ár frá því að hvolpur fer frá móður sinni þar til hann er fullþjálfaður og vottaður hjálparhundur. Fylgja þarf þjálfuninni eftir og endurmeta hundinn með vottun annað hvert ár.

Hvernig fæ ég hjálparhund?

Hægt er að hafa samband við Hjálparhunda Íslands og fá aðstoð við ferlið. Félagið getur aðstoðað við val á hundi sem hentar í verkefnið og bent á hundaþjálfara og vottað hundinn þegar hann er fullþjálfaður.

Hvaða tegundir henta sem hjálparhundur?

Allar tegundir svo framalega sem þær hafa rétta skapgerð, styrk og getu í hlutverkið. Meira máli skiptir að hundurinn passi í verkefnið til dæmis ef hundur á að vinna með barni þarf hann að hafa áhuga á börnum og vera mjög öruggur, ef hundur þarf að ferðast daglega með eiganda sínum í bíl má hann ekki vera bílveikur og ef eigandi þarf að styðja sig við hundinn þarf hundur að vera sterkur og stór. Hjálparhundur þarf að vera öruggur og traustur, vinnuglaður, geta skipt á milli þess að vera rólegur og virkur og að vera vel umhverfisþjálfaður.

 

Hvernig vel ég hjálparhund?

Yfirleitt eru hvolpar valdir eftir að skapgerðardómari hefur metið got. Skapgerð hvolps er metin en einnig skapgerð foreldra og hvort þeir hafi gefið af sér góða einstaklinga áður. Þá er mikilvægt að taka tillit til þess hvaða verkefni verðandi hjálparhundur á að vinna og hver á að nota hundinn til dæmis hvort um er að ræða barn eða fullorðinn einstakling. Með þetta í huga er valinn líklegasti hvolpurinn til að hafa rétta eiginleika í verkefnið.

Hver elur hundinn upp?  

Ýmist getur eigandi alið upp hvolpinn ef hann er fær um það, fengið svokallaða fósturfjölskyldu sem sér um hundinn þar til hann er fullþjálfaður eða fjölskyldumeðlimur tekur að sér verkefnið. Þegar hundur hefur náð fullum andlegum og líkamlegum þroska og áður en hann fer í lokaþjálfun þarf að meta hvort hundur hentar í verkefnið sem honum er ætlað og skoða af dýralækni. Hundurinn þarf að vera öruggur, láta vel að stjórn, vera fyrirsjáanlegur þ.e. bregðast eins við í sömu aðstæðum og vera heilbrigður.

Hvernig er ferlið að því að búa til hjálparhund?

Fyrst og fremst þarf hvolpurinn gott og kærleiksríkt uppeldi og mikla og góða umhverfisþjálfun. Með aldri og auknum þroska taka við hlýðniæfingar og síðar æfingar fyrir þau verkefni sem honum er ætlað að sinna.  

Hvað þarf hjálparhundur að geta gert

  • legið á teppi eða gólfi og vera í ró meðan eigandi vinnur með annað

  • verið rólegur til dæmis á veitingastað og án þess að sníkja

  • verið í margmenni og ráðið við að fólk gangi fram og til baka

  • hitt aðra hunda og fólk án þess að verða æstur

  • gengið fínn í taum

  • ráðið við 2-3 færniverkefni sem hann á að hjálpa eiganda sínum með 

 

Hvernig fæ ég vottun fyrir hundinn minn?

Þegar hundur er fullþjálfaður er sótt um vottun til Hjálparhunda Íslands.

bottom of page