Reglur Hjálparhunda Íslands um vottun hjálparhunda
Í vottun Hjálparhunda Íslands felst að hundur hefur staðist a) hæfnimat b) heilbrigðiskröfur c) verklegt próf og að d) eigandi sæki árlegt námskeið á vegum félagsins.
Til þess að fá vottun þarf hundur að vera að lágmarki 18 mánaða, skráður í samræmi við ákvæði í samþykktum einstakra sveitarfélaga og uppfylla kröfur um heilbrigði og þjálfun líkt og tilgreint er að neðan.
Stjórnandi hunds skal vera að lágmarki 18 ára og skráður í Hjálparhunda Íslands.
Vottun hjálparhunds á vegum Hjálparhunda Íslands gildir í eitt ár.
a) Hæfnimat á hjálparhundum
Hjálparhundar Íslands sjá um framkvæmd hæfnimats á hjálparhundum hér á landi og ber stjórn félagsins ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd þess. Matið fer fram í margmenni á opinberum stað sem er aðgengilegur fyrir fólk með hreyfihömlun. Á svæðinu er mismunandi undirlag, tröppur, lyfta, sjálfvirkar hurðir, þröngir gangar og húsgögn. Velferð hunds skal ganga fyrir við skipulag og framkvæmd matsins.
Hundar eiga að vera með venjulega hálsól eða beisli í samræmi við reglugerð um velferð gæludýra nr. 80/2016. Múlar eða annars konar leiðréttingarólar eru ekki leyfðar. Stjórnandi má hrósa hundi í mati og heimilt er að nota allt að fimm nammibita. Leikföng, klikker, flautur eða önnur hjálpartæki eru ekki leyfð.
Allar æfingar fara fram í taum nema annað sé sérstaklega tekið fram. Hundur skal ekki losa sig, væla eða gelta á meðan á mati stendur. Tíkum á lóðaríi, hvolpafullum tíkum eða tíkum með hvolpa yngri en átta vikna er ekki heimil þátttaka í mati.
Niðurstöður hæfnimats eru kynntar stjórnanda að mati loknu.
b) Heilbrigðisskröfur/dýralæknavottorð
Umsókn um vottun skal fylgja (á við um alla hunda):
-
Heilsufarsbók eða útprentun úr sjúkraskrá þar sem fram kemur örmerki og upplýsingar um bólusetningar og ormahreinsanir skv. reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002.
-
Staðfesting dýralæknis á heilsufarsskoðun hunds má ekki vera eldri en tveggja mánaða.
-
Staðfesting á heilbrigði hunds með niðurstöðu í samræmi við ræktunarstaðla tegundar hunds. Ef um blending er að ræða skal fylgja ræktunarstöðlum undirliggjandi tegunda hunds.
-
Önnur próf sem krafa er gerð um í tegund miðaða við ræktunarstaðla.
c) Verklegt próf
Færni hunds er metin við að framkvæma þrjú sértæk verkefni sem hann hefur verið þjálfaður til að aðstoða eiganda sinn við.
d) Námskeið fyrir eigendur hjálparhunda
Árlega er haldið helgarnámskeið fyrir hjálparhunda og eigendur þeirra. Á námskeiðinu er samvinna teymis metin og unnið með þá þætti sem þarf að lagfæra eða bæta við. Markmið námskeiðsins er að efla og viðhalda þekkingu og færni teymisins og endurnýja gilda vottun hjálparhunds.
Umsókn um vottun
Sækja skal um vottun hunds á eyðublaði og senda til stjórnar Hjálparhunda Íslands á netfangið hjalparhundar@gmail.com eða á skrifstofu félagsins. Með umsókn skal senda fyrrnefnd fylgiskjöl. Ef skráningargjald er ekki greitt að fullu áður en skráningarfresti lýkur getur félagið hafnað skráningu.
Merking hjálparhunds
Hundur sem hefur staðist vottun Hjálparhunda Íslands skal merktur sem hjálparhundur með vesti frá félaginu. Eigandi/stjórnandi hunds fær afhent skírteini með nafni og mynd af teymi.