top of page

Lög félagsins

 

1. grein

​Félagið heitir Hjálparhundar Íslands

2. grein

Tilgangur félagsins er að:

  • bæta þjálfun, úthlutun og notkun hjálparhunda

  • bæta menntun sérfræðinga, starfsfólks og sjálfboðaliða

  • fræða almenning um hjálparhunda

  • vinna að setningu laga um réttindi fólks með fötlun eða sjúkdóm til þess að notfæra sér aðstoð hunda og þjónustu með aðstoð hunda

3. grein

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

  • vinna að því að settar verði reglur og staðlar um hjálparhunda (m.a. verði fjallað um velferð hundanna) og vottun um hæfni þeirra

  • vinna að því að boðið verði upp á námskeið fyrir hjálparhunda og eigendur þeirra og gert reglulegt mat á samstarfi hunda og eigenda

  • vinna að því að boðið verði upp á námskeið og/eða menntun fyrir fólk sem vill bjóða þjónustu með aðstoð hunda

  • veita fræðslu út í samfélagið í gegnum fjölmiðla, vefsíðu félagsins, fréttabréf o.þ.h.

  • vinna að auknum skilningi innan ríkis og sveitarfélaga

  • vinna með stjórnvöldum að gerð laga og reglna um notkun hjálparhunda

  • taka þátt í norrænni, evrópskri og alþjóðlegri samvinnu um hjálparhunda

4. grein

Félagsaðild eiga allir þeir sem hafa áhuga á málefnum hjálparhunda. Kosningarétt og kjörgengi hafa þeir sem greitt hafa félagsgjald. Greiða skal félagsgjald eigi síðar en fimm virkum dögum fyrir aðalfund.

5. grein

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur á aðalfundi.

6. grein

Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. apríl ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1.    Kosning fundarstjóra og fundarritara

2.    Skýrsla stjórnar lögð fram

3.    Reikningar lagðir fram til samþykktar

4.    Lagabreytingar

5.    Ákvörðun félagsgjalds

6.    Kosning stjórnar

7.    Önnur mál

Erindi um þess háttar mál skulu vera skrifleg og hafa borist stjórn Hjálparhunda Íslands viku fyrir aðalfund. Ef tillaga er lögð fram á aðalfundi um mál sem ekki er að finna undir önnur mál skv. þessum tölulið, getur fundurinn ákveðið að taka hana til umfjöllunar, en ekki til ákvörðunar.

7. grein

Stjórn félagsins skal skipuð 3 félagsmönnum, formanni og 2 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi. Formaður og varamenn skulu kosnir til eins árs í senn og meðstjórnendur til tveggja ára í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

8. grein

Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega.

9. grein

Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins.

10. grein

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar.

 

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins 25. janúar 2018.

bottom of page